149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:29]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Nei, ég hef ekki skýringar á því. Við höfum séð einstaklinga koma fram sem verið hafa í fararbroddi fyrir þennan ágæta stjórnmálaflokk, Vinstrihreyfinguna – grænt framboð, og lýsa undrun sinni á þeirri vegferð sem flokkurinn er, þar sem hann virðist hreinlega ganga í blindni í því að samþykkja og taka upp frekari markaðsvæðingu orkunnar, að líta á hana sem hverja aðra söluvöru.

Ég er líka hissa á því að aðrir flokkar í þessari ríkisstjórn skuli halda á spilunum eins og þeir gera miðað við hvað þeir sögðu hér áður fyrr. Ég velti því fyrir mér hvað það er sem fær í ríkisstjórnina til að bregðast svona við. Getur það verið, og ég velti því bara upp, hv. þingmaður, að þingmenn hafi komist að því að vegna þess að Samfylkingarflokkarnir í minni hlutanum ætla allir, að því er virðist, að samþykkja þennan orkupakka þá hugsi þingmenn að þeir geti mögulega verið fjarverandi þegar kemur að atkvæðagreiðslunni?