149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:30]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M):

Hæstv. forseti. Ég sagði í síðustu ræðu minni að ég ætlaði í nokkrum ræðum að fara yfir orkupakkann og hryggjarstykkið í honum og afleiðingar þess sem því öllu fylgir. Ég er með hér til umfjöllunar tilskipun 72/2009 sem fjallar um raforkuna, á meðan tilskipun 73 fjallar um jarðgasið. Í síðustu ræðu minni fjallaði ég um 33. gr., markaðsopnun og gagnkvæmni, en ætla núna að víkja að 35. gr., tilnefning og sjálfstæði eftirlitsyfirvalda.

Í 1. tölulið greinarinnar er fjallað um að hvert aðildarríki skuli tilnefna eitt landsbundið eftirlitsyfirvald, sem yrði þá Orkustofnun í okkar tilfelli. Í 2. tölulið 35. gr. segir, með leyfi forseta:

„Ákvæði 1. mgr. þessarar greinar skal ekki hafa áhrif á tilnefningu annarra eftirlitsyfirvalda á svæðisvísu innan aðildarríkja, að því tilskildu að það sé einn háttsettur fulltrúi sem er í fyrirsvari og tengiliður á vettvangi bandalagsins í nefnd eftirlitsaðila stofnunarinnar í samræmi við 1. mgr. 14. gr. reglugerðar (EB) nr. 713/2009.“

Í 4. tölulið er kveðið á um að:

„Aðildarríkin skulu ábyrgjast sjálfstæði eftirlitsyfirvaldsins og skulu tryggja að það beiti valdi sínu af óhlutdrægni“ — sem er ekki óeðlilegt — „og á gagnsæjan hátt. Í þessum tilgangi skal aðildarríki sjá til þess við framkvæmd eftirlitsins sem eftirlitsyfirvaldið felur því með þessari tilskipun og tengdri löggjöf að eftirlitsyfirvaldið:

a) sé lagalega aðgreint og óháð öllum öðrum opinberum aðilum eða einkaaðilum að því er varðar starfsemi,“

Í 2. tölulið ii. 4. gr. segir:

„[Það] leiti ekki eftir eða taki við beinum fyrirmælum frá neinni ríkisstofnun eða öðrum opinberum aðila eða einkaaðila við framkvæmd eftirlitsverkefnanna. Þessi krafa er með fyrirvara um náið samstarf, eftir því sem við á, með öðrum viðkomandi landsyfirvöldum eða um almennar viðmiðunarreglur sem gefnar eru út af ríkisstjórninni án þess að hafa áhrif á eftirlitsvald og skyldur samkvæmt 37. gr. “

Það þýðir raunverulega að þetta yfirvald lýtur ekki boðvaldi framkvæmdarvaldsins á Íslandi og í þessu felst sá vafi að þarna sé raunverulega verið að framselja vald, eða efinn um það hvort svo sé eða ekki.

Ég ætla að halda áfram, með leyfi forseta:

Í a-lið 5. töluliðar segir:

„eftirlitsyfirvaldið geti tekið sjálfstæðar ákvarðanir, óháð öllum aðilum á sviði stjórnmála, og hafi aðskildar árlegar fjárúthlutanir, sjálfræði við framkvæmd fjárúthlutana, og fullnægjandi mannafla og fjármagn til að sinna skyldustörfum sínum og …“

Sem sagt, þessi eftirlitsaðili, Orkustofnun, landsreglari, skuli með öðrum orðum ekki lúta neinni stjórn íslenskra yfirvalda en hins vegar ber okkur skylda til að fjármagna þessa stofnun eða þennan eftirlitsaðila. Okkur ber að leggja til fjármagn til að það vald geti sinnt hlutverki sínu sem síðan á að vera í miklu og góðu samstarfi við Evrópusambandið og ESA, sem er Eftirlitsstofnun EES.

Þessi vandi kristallast í því að við erum að afhenda þessi völd sem eru stjórnarskrárbundin eftir því sem fræðimenn komast að, alla vega leiki mikill vafi á því hvort við raunverulega höldum sjálfræði í þessu máli. Vegna þess að síðan er kveðið á um, og ég kem inn á það betur varðandi 36. gr., hvaða áhrif þetta hefur svo í framhaldinu. En ég sé að tíminn er hlaupinn frá mér og eins og ég sagði í fyrri ræðu minni mun ég halda áfram að leiða út þessa röksemdafærslu í næstu ræðu.