149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:35]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Mjög áhugavert er að fara yfir þetta nýja, eigum við að segja nýja hlutverk Orkustofnunar sem felst í því að innleiða þennan orkupakka, þessa tilskipun Evrópusambandsins og hvaða þýðingu það komi til með að hafa hér á landi. Það er verið að fjölga starfsmönnum við þessa stofnun, auka fjárveitingar í gegnum fjárlög og stofnunin fær heilmikil völd. En maður spyr: Hvernig hefur þessu verið háttað hingað til? Er þessi eftirlitsþáttur svona nauðsynlegur? Maður velti því fyrir sér.

Ríkisbáknið, ef svo má að orði komast, hefur þanist út í tíð núverandi ríkisstjórnar. Það er og hefur verið sérstakt áhugamál hjá ríkisstjórninni, sérstaklega Sjálfstæðisflokknum, að þenja út ríkisbáknið, sem er alveg á skjön við fyrri yfirlýsingar þess flokks og stefnuskrá um að draga úr ríkisbákninu. Þetta kemur manni því svolítið spánskt fyrir sjónir að flokkurinn skuli styðja þetta, að þessi stofnun fái meiri völd og hærri fjárveitingar.

En að sama skapi langar mig að fá það fram hvort hv. þingmaður þekki til þess að þessu eftirliti hafi verið ábótavant. Er eitthvað í ferlinu í dag sem kallar á svona virkt eftirlit og að auka eftirlitið? Hefur (Forseti hringir.) hv. þingmaður hugmynd um það? Hv. þingmaður hefur kynnt sér þetta vel, heyri ég, og flutti góða ræðu um þessi mál.