149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:40]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og svona góða greiningu á stöðunni innan Evrópusambandsins þegar kemur að regluverki. En að sama skapi erum við akkúrat í þeirri stöðu að við erum lítil þjóð og aðstæður hér eru allt aðrar en á Evrópska efnahagssvæðinu eða meginlandi Evrópu. Þess vegna held ég að ljóst sé að það að fá svona mikil völd, að Orkustofnun fái þessi völd og verði nokkurs konar ríki í ríkinu, er eitthvað sem á ekki við okkar aðstæður. Maður hefur svolitlar áhyggjur af því hvernig valdheimild þeirrar stofnunar kemur til með að þróast. Það er eitthvað sem er nauðsynlegt að fá að vita og hvaða ítök hún kemur til með að hafa almennt þegar kemur að raforkumálum í landinu, mótun orkustefnu o.s.frv. ef þarna er komið nokkurs konar, ef ég skil þetta rétt, boðvald frá Evrópusambandinu innan okkar, eins og hv. þingmaður nefndi réttilega, orkusvæðis. Við erum sjálfstæð þjóð, við skulum hafa það alveg á hreinu.

Er það ekki mjög óvenjulegt að þessi stofnun sem slík fái slíkt vald sem í raun og veru kemur frá Evrópusambandinu, að Evrópusambandið skuli leggja það að ákveðin stofnun í þjóðríki skuli fá svona mikið vald og þá með þessa tengingu (Forseti hringir.) við Evrópusambandið hjá ríki sem er ekki í sambandinu?