149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:42]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Jú, það er nú málið að á Íslandi myndi slík stofnun vera ríki í ríkinu, eins og ég lít á það, en innan Evrópusambandsins væri slík stofnun ekki ríki í ríkinu vegna þess að slík stofnun lýtur lögmálum, stefnu, markmiði og regluverki sem gildir innan þess sambands. Það er kannski lykillinn í þessu, þ.e. þessi litlu skref sem verið er að taka. Og með innleiðingu fyrsta og annars orkupakka, annars orkupakkans einkum, þá höfum við raunverulega innleitt gerð sem gerir það að verkum að við skoðumst sem hluti af þeim raforkumarkaði og því regluverki sem þar gildir, eins langt og það nær. En við erum ekki tengd innra orkunetinu.

Nú er tíminn fyrir okkur Íslendinga að spyrna við fótum og ákveða að halda sjálfræði og yfirráðum yfir þessari orku okkar. Ég kem inn á það í næstu ræðu minni af því að ég hef ekki tíma til þess í andsvörum að segja frá því hvað þetta þýðir, hvaða völd og hvaða skyldur slík stofnun sem þessi hefur. Það varðar einmitt við hvaða aðstæður þeir sem eru svo á orkumarkaði skuli búa og hver verkefni stofnunarinnar eru til að greiða götu Evrópusambandsins í að ná fram sínum markmiðum og þau kallast sannarlega ekki á við sjálfstæða og fullvalda þjóð.