149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:49]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Annað varðandi þetta ráðslag hefur valdið mér nokkrum áhyggjum. Það er valdið eða þau réttindi sem þessi yfirstofnun hefur til að ákveða sektargreiðslur sem lagaðar verða á íslensk orkufyrirtæki. Ég verð að segja að þær sektargreiðslur, alla vega eins og þær birtast þeim sem hér stendur, eru á alveg nýjum stað, upphæðirnar sem þarna um ræðir eru af þeirri stærðargráðu að maður hefur eiginlega ekki séð slíkt áður. Menn hafa nú sumir stunið yfir stjórnvaldssektum sem Samkeppnisstofnun hefur t.d. lagt á hér heima, en þarna erum við að tala um allt aðra hluti. Þarna erum við að tala um ef t.d. fyrirtæki eins og Landsvirkjun gerist brotleg að mati þessarar yfirstofnanirnar geta sektargreiðslur numið milljörðum króna.

Það sem maður óttast er að það virðist ekki kveikja nein aðvörunarljós hjá ríkisstjórnarflokkunum þrátt fyrir varnaðarorð okkar bestu sérfræðinga, eins og hv. þingmaður nefndi réttilega. Þeir virðast ætla að ganga með þennan orkupakka á bakinu í gegnum þingið, á stígvélum og í flýti, og virðast ekki hafa áhyggjur af þessum málum á nokkurn hátt.

Mig langar aðeins að biðja hv. þingmann að fara yfir þetta með mér, þ.e. (Forseti hringir.) heimildir þessa yfirþjóðlega valds til að leggja sektargreiðslur á íslensk orkufyrirtæki.