149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:51]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir áhyggjur hv. þm. Þorsteins Sæmundssonar um leið og ég þakka honum fyrir andsvarið á þessum hluta heimildanna, þ.e. um stjórnvaldssektir eða heimildir til ákvörðunar sektargreiðslna, vegna þess að yfirleitt er það svo í hinni hefðbundnu stjórnskipun sem við þekkjum í þrískiptingu ríkisvalds, að slíkar ákvarðanir eru alla jafna á höndum dómstóla. Við störfum eftir lögum og það þarf að sanna brot og við höfum túlkað lög hingað til á þann hátt að hvort sem það er lögaðili eða einstaklingur þá skuli hver vera saklaus þar til sekt er sönnuð. En þarna er stofnun, sem er ríki í ríkinu, fært vald í hendur til þess að ákvarða refsingu á hendur einkaaðila sem að öllum líkindum er lögaðili. En það breytir ekki grunneðli og inntaki á þrískiptingu ríkisvaldsins, sem ég tel afar mikilvægt að við horfum til.

Það er alltaf verið að seilast lengra og lengra í einhvers konar kollektívisma, ég bið forseta að afsaka orðalagið, þ.e. einhverja samþjöppun valds en ekki dreifingu þess og lýðræðislegri beitingu. Ég tel að það sé afar alvarlegt.

Varðandi það að hér hafi menn ekki áhyggjur? Jú, ríkisstjórnin hefur áhyggjur og margir stjórnarliðar lýstu því fyrir einungis ári síðan að þeir myndu ekki fylgja þessu máli eftir, en virtust (Forseti hringir.) hafa róast við að hér var sagt að einhvers konar fyrirvarar væru (Forseti hringir.) fyrir hendi.