149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:53]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég verð að hefja ræðu mína á því að óska Selfyssingum innilega til hamingju með að hafa unnið sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í handbolta karla með afgerandi sigri sínum fyrr í kvöld, 35:25, á harðsnúnu liði Hauka í Hafnarfirði. Ég vil nota þetta tækifæri til að óska ungmennafélagi Selfoss til hamingju með þennan glæsilega árangur.

Herra forseti. Eftir að hafa farið hér hratt yfir virkjunarsögu okkar Íslendinga í mínum fyrri ræðum, þar sem ég gerði því skóna að sú saga væri nátengd hinni miklu uppbyggingu sem átt hefur sér stað á flestum sviðum samfélagsins, ræddi ég tengingu við aðrar framfarir á nánast sama tíma og sýndust vera í samfelldum takti við hraða uppbyggingu á raforkuverum. Þar lagði ég áherslu á framfarir hvað varðar atvinnuuppbyggingu og tækni sem allt leiddi til sífellt betri lífskjara og velmegunar hér á landi. Þannig leitaðist ég við að tengja velmegun okkar í samtímanum við fortíðina, að virkjunarsagan væri samofin lífskjörum okkar í dag.

Samtímis hélt ég því fram að Íslendingar væru því sem næst bundnir orkuauðlindum sínum vissum tilfinningaböndum, í sögulegu samhengi hlutanna. Í því samhengi benti ég á mikilvægi þess að átta sig á því að hér hafi í gegnum þessa sögu, herra forseti, tekist einhvers konar sátt um að fara út í stórvirkjanir, byggja öflugt dreifikerfi og taka framkvæmdaféð að láni til langs tíma. Þessar framkvæmdir voru stórátak fyrir fámenna þjóð, næsta örþjóð, í landi sem er stóran hluta ársins í heljargreipum vetrarins og á þeim tíma næsta samgöngulítið.

Það er mikilvægt að hafa í huga þegar talað er um þessa sátt sem ég nefndi, og ég ætla að sé enn til staðar í dag, að virkjanirnar og dreifikerfi raforku var og er að mestu enn í opinberri eigu og þar með í eigu landsmanna allra. Að öllu þessu sögðu má fullyrða að landsmenn hafa talið sig eiga það inni að hér væri verð á raforku lágt og myndi, ef eitthvað væri, lækka enn frekar þegar stofnkostnaður virkjana og dreifikerfis væri að mestu greiddur. Áætlað var að Búrfellsvirkjun yrði greidd upp á aldarfjórðungi eða um síðustu aldamót. Eðlilegt var að sú stund þegar landsmenn gætu fyrir alvöru notið ávaxta fjárfestingarinnar frestaðist nokkuð þegar ákveðið var að leggja í fleiri stórvirkjanir á borð við Fljótsdalsvirkjun.

Herra forseti. Af þessum ástæðum snertir það taug í hjarta landsmanna ef þeir telja að of langt sé seilst í þessa auðlind sem þeir almennt telja að sé og eigi að vera í þjóðareigu. Þeir eru mjög andsnúnir því að það verði einhverjir aðrir en almenningur á Íslandi sem eigi að njóta góðs af þessari auðlind. Við þetta má síðan bæta að það er af framangreindum ástæðum sem landsmenn telja einnig að rafmagn eigi að vera ódýrt hér á landi, bæði til almennings og innlendra fyrirtækja, og munu ekki sætta sig við neitt annað.

Herra forseti. Svo að allt öðru. Stjórnarflokkarnir lögðu þetta mál upp og sögðu að ástæða þess að óhætt væri að aflétta stjórnskipulega fyrirvaranum og innleiða þannig þriðju orkutilskipun Evrópusambandsins væri að við Íslendingar myndum innleiða tilskipunina með lagalegum fyrirvara. Þetta leit allt mjög vel út þótt fáir gerðu sér grein fyrir því hvað nákvæmlega fælist í slíkum lagalegum fyrirvara. Þegar Miðflokkurinn kallaði ítrekað eftir því að fá að sjá hvar fyrirvarann væri að finna kom mikið fát á stjórnarliða. Næstu klukkustundirnar fengum við að heyra uppástungur — já, herra forseti, uppástungur — og a.m.k. fjórar mismunandi útgáfur af því hvar hann væri og hvers lags hann væri.

Ég hef ekki tíma í þessari ræðu að fara nánar yfir þetta en mun halda áfram með þessa sögu í næstu ræðu minni.