149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:59]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Hann hefur flutt hér nokkrar mjög góðar ræður, sem eru sögulegt yfirlit yfir raforkuframleiðslu í landinu. Það er mjög mikilvægt í þessari umræðu að við gerum okkur grein fyrir sérstöðu okkar og því mikla afreki sem hefur verið unnið við uppbyggingu raforkukerfis landsins, sem við viljum að sjálfsögðu hafa allt um að segja hvernig komi til með að þróast í framtíðinni.

Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins út í undanþágur frá EES-samningnum, þ.e. að sameiginlega EES-nefndin getur veitt undanþágur frá þessum orkupakka ef hann yrði lagður fyrir hana, en ríkisstjórnin hefur ekki kjark til að gera það af einhverjum ástæðum. Þess eru dæmi að aðildarríkjum hafi verið veittar undanþágur. Ísland hefur t.d. fengið undanþágu hvað varðar innleiðingu á regluverki um jarðgas, skipaskurði og járnbrautir, löggjöf sem á ekki við hér á landi. Þær undanþágur hafa ekki valdið neinum truflunum á samningnum, ef svo má orða það, eða fjórfrelsinu yfir höfuð. Þess vegna hefði maður talið að það væri ekkert að óttast í þeim efnum að fara með þetta mál fyrir sameiginlegu EES-nefndina.

En það sem ég vildi fá fram frá hv. þingmanni: Í ljósi þessa, telur hann nokkuð því til fyrirstöðu, er eitthvað að óttast við það — nú er þetta lögfræðileg spurning — að fara með þetta mál fyrir sameiginlegu nefndina í ljósi þess að búið er að veita okkur undanþágur frá ýmsum öðrum málum?