149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:01]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir þessar vangaveltur og spurningu. Stutta svarið er: Nei. Það er ekkert að óttast við að fara eftir samningi. Það hefur ekki verið það. Það er ákvæði í samningnum sem tekur einmitt á þessu. Ágreiningsefni eða beiðnir um undanþágu frá ákveðnum gerðum eiga sér lögformlega leið í samningnum og hefur margoft verið rætt um það og bent á það hér. Ég skil ekki frekar en hv. þingmaður af hverju menn eru hræddir við að fara þá leið og get einungis getið mér til um ástæðurnar.

Ég þekki ekki þetta samningaferli, hvernig það á sér stað, hvort þetta sé einhvers konar ókurteisi eða talið pólitískt erfitt eða eitthvað slíkt. En þetta er í samningnum, í lagagrein í samningnum. Leiðin er greið ef samningurinn er lesinn svona hreint og beint. Það virðist mér vera ef ég á að gefa álit mitt á því.

En hefðirnar geta verið ýmsar í samskiptum ríkja. Þær eru sterkar þarna. Menn bera það fyrir sig að þetta hafi aldrei gerst áður, menn hafi ekki farið þessa leið áður þegar komið er svo langt í ferlinu að fara aftur fyrir nefndina, að það hafi aldrei gerst í 25 ára sögu samningsins. Ég tel að það sé ekki viðbára sem haldi vegna þess að samningurinn er jafngildur þótt hann sé orðinn 25 ára gamall og þó reyni ekki á allar greinar getur reynt á þær síðar. Þær eru þarna og til hvers þá að láta þær liggja ónotaðar?