149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:06]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu og þær ræður sem hann hefur flutt hingað til í þessari umræðu og hafa í sjálfu sér dregið athygli okkar að þeirri stórkostlegu uppbyggingu sem orðið hefur í íslensku þjóðfélagi undanfarna áratugi. Nú virðist hins vegar sem íslensk stjórnvöld séu reiðubúin að offra þeim árangri og uppbyggingu sem unnið hefur verið að allan þennan tíma og leggja upp í óvissuferð með þessa sögu og þessa uppbyggingu að veði.

Ég mun koma inn á það seinna í nótt í ræðu um fyrirvarana og annað, en tregða stjórnvalda til að lesa allan EES-samninginn veldur manni bæði áhyggjum og gremju. Það er eins og menn hætti að lesa við 100. og 101. gr. Það er eins og menn hafi ekki döngun í sér til að framfylgja því sem segir einkum í 102. gr. samningsins um að vísa málum til sameiginlegu nefndarinnar.

Mig langar að fá álit hv. þingmanns á því hvað hann telur að hrjái stjórnvöld í þessu máli, þetta kjarkleysi og hvað menn eru eitthvað litlir í sér varðandi þetta. (Forseti hringir.) Mig langar að fá álit þingmannsins á því.