149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:08]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Í síðustu þremur ef ekki fjórum ræðum mínum fór ég yfir virkjunarsöguna. Ástæða þess að ég gerði það er áhugi minn á að leitast við að varpa sögulegu ljósi á það af hverju orkumálin rista svo djúpt í þjóðarsálinni. Það var tilgangur þess að ég fór ofan í þetta og reyndi að skýra með þeim hætti sem ég gerði. Ég tel einmitt að þetta risti mjög djúpt í vitund landsmanna af þeim ástæðum sem ég tilgreindi. Menn lögðu á sig erfiði til að komast þangað sem við erum núna staddir. Virkjun orkunnar á svo ríkan þátt í hinni almennu skoðun landsmanna um ódýra orku og orku fyrir alla. Við erum búin að dreifa orkunni um allt land og inn í alla firði og dali, hversu langir eða djúpir sem þeir eru, og mönnum finnst að þeir eigi rétt á því. Þetta land er kalt og vetur eru langir. Þetta var ljósið í myrkrinu, jafnvel í bókstaflegri merkingu þess orðs.

Þess vegna ristir þetta svo djúpt í þjóðarvitundinni.

En ég var ekki búinn að svara því sem hann spurði helst um, spurningunni um ætlað kjarkleysi. Ég veit ekki hvort það er einhver hefð fyrir því að ef menn nefna það ekki á fyrri stigum að þeir vilji fá undanþágu eða vera undanskildir einhverjum gerðum sem eru í bígerð til innleiðingar hafi menn ekki döngun í sér til að koma til baka síðar og biðja um undanþáguna hafi þeir ekki nefnt hana nógu skýrlega (Forseti hringir.) á fyrri stigum.