149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:21]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég var búinn að ákveða að næstu tvær ræður sem ég flytti yrðu á þeim slóðum að fara yfir það fyrirvaraleysi sem íslensk stjórnvöld hafa orðið uppvís að í innleiðingu á þriðja orkupakkanum en mjög góðar upprifjanir hv. þm. Karls Gauta Hjaltasonar ýttu mér í að fara aðeins yfir þá sögu þegar Íslendingar misstu virkjunarréttindi sín í hendur útlendinga um nokkuð langan tíma.

Sá sem hér stendur er mikill aðdáandi Einars Benediktssonar skálds. Á árunum 1910–1918 eignuðust Einar Benediktsson og hlutafélög honum tengd gríðarleg vatnsréttindi víða á Íslandi. Það er m.a. hægt að benda á virkjunarréttindi og vatnsréttindi sem innifela Jökulsá á Fjöllum, þ.e. Dettifoss, og fleiri fossa á Norðurlandi, en einkum í Þjórsá. Um þetta stofnaði skáldið mest tvö stór hlutafélög, annað hét Gígant og hitt Títan, og keypti upp vatnsréttindi í t.d. allri Þjórsá og þverám hennar og ætlaði sér að reisa orkuver þar sem Búrfellsvirkjun reis svo hálfri öld síðar.

Tilgangurinn með því að reisa þessa virkjun við Búrfell var sá að selja rafmagn til áburðarframleiðslu. Kannski varð það skáldinu að falli að áform hans um stórkostlega iðnaðaruppbyggingu á Íslandi voru 50–70 árum á undan tímanum.

Hvers vegna fer ég yfir þetta? Vegna þess að meðeigendur Einars Benediktssonar í þessum félögum voru mest Norðmenn, norskir auðmenn, en einnig Englendingar. Skáldið bjó langdvölum erlendis meðan hann safnaði og seldi hlutafé í þessum hugðarefnum sínum. Svo efnaður varð hann á þessum viðskiptum að hann keypti húsið Höfða í Reykjavík og nýtti sem sumarhús, ekki sem íbúðarhús fyrir fjölskylduna heldur sem sumarhús. Að auki hafði hann aðsetur rétt fyrir utan London í 17. aldar húsi þar og hafði mikið umleikis. Þegar hann var á hátindi velgengni sinnar hafði hann selt það mikið af hlutabréfum í þessum fyrirtækjum að eitt árið voru tekjur hans á við öll fjárlög íslenska ríkisins á þeim tíma. Það var 1917 ef ég man rétt.

Hvers vegna fer ég yfir þetta? Vegna þess að íslenska ríkið reyndi að sjálfsögðu að eignast þessi vatnsréttindi aftur. Og af því að ég minntist á að Einar Benediktsson hefði verið u.þ.b. 50 árum á undan sinni samtíð er það fyrst árið 1951 sem íslenska ríkið kaupir til baka vatnsréttindi í Þjórsá og þverám hennar af hlutafélaginu Títan sem þá var enn til. Kaup Títans höfðu orðið til á árunum 1914–1924. Kaupverð íslenska ríkisins árið 1951 á öllum þessum vatnsréttindum var 1,5 millj. kr.

Og hvers vegna fer ég yfir þetta? Við erum lygilega nálægt því núna að stíga skref í þá átt að íslensk vatnsréttindi og virkjunarréttindi hverfi í eigu útlendinga.