149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:26]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir virkilega góða og áhugaverða ræðu. Að sama skapi tek ég undir það með hv. þingmanni að ég er mikill aðdáandi Einars Benediktssonar. Við þekkjum þá sögu náttúrlega, af því að hv. þingmaður minntist á þjóðskáldið okkar, að hann er þekktur fyrir að hafa selt norðurljósin. Nú vitum við svo sem ekki sannleiksgildi þeirrar flökkusögu en sagan er engu að síður góð. Eitt er víst, Einar Benediktsson var sölumaður af guðs náð og hefði svo sannarlega getað selt norðurljósin ef út í það hefði verið farið.

Þetta sýnir hins vegar hvernig hlutirnir þróast. Við sjáum í dag að eins fjarstæðukennt og það þótti að Einar Benediktsson gæti selt norðurljósin eru norðurljósin arðbær viðskipti hér á landi í dag. Þau eru seld ferðamönnum í svokölluðum norðurljósaferðum. Það sem þótti fjarstæðukennt á þeim tíma eru arðbær viðskipti í dag.

Þetta má alveg heimfæra á svokallaðan sæstreng. Þeir sem segja að hér komi aldrei sæstrengur og að við þurfum ekki að hafa neinar áhyggjur af því geta hugleitt þessa skemmtilegu sögu. Sæstrengur mun koma. Ég beindi því í minni fyrstu ræðu til þeirra sem halda því fram að hann komi ekki að því var haldið fram að talsíminn kæmi aldrei í sveitirnar.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir að benda á þetta. Það hefði verið gaman að fá fleiri áhugaverða punkta vegna þess að þetta hefur mikið að segja (Forseti hringir.) í þessu sambandi. Ég er ekki með ákveðna spurningu til hv. þingmanns en fæ kannski að koma henni að á eftir.