149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:29]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa hugleiðingu. Ég sé að það er nauðsynlegt fyrir umræðu morgundagsins og annarrar nætur að ég hafi með mér í farteskinu á morgun sýnisbók með ljóðum skáldsins þannig að við getum á einhverjum tímapunkti ef okkur leiðist um lágnættið endurnærst með því að fara yfir nokkur af hans fágætustu og bestu ljóðum.

Eins og ég sagði áðan rifjaði ég þetta upp vegna þess að það vill svo til að um þessar mundir er ég að lesa Væringjann mikla, ævisögu skáldsins eftir Gils Guðmundsson. Það er svo sem eins og tilviljun akkúrat inn í þessa umræðu að ég er þar kominn í sögunni sem skáldið er að kaupa upp öll þessi vatnsréttindi o.s.frv. Þá rann upp fyrir mér það ljós hvort ekki sé falinn í þessari sögu ákveðinn varnaðarboðskapur fyrir okkur sem höldum núna með einhverjum hætti á þessum réttindum og eigum að tryggja að þau séu í eigu barnanna okkar og barnabarna og undir yfirráðum þeirra næstu áratugi.

Ég fór að velta því fyrir mér, af því að það virtist svo auðvelt á þessum árum, 1910–1918, að fara um sveitir landsins og kaupa upp réttindin, bita fyrir bita, nákvæmlega eins og Evrópusambandið er núna bita fyrir bita að innleiða hverja orkutilskipunina á fætur annarri og við gleypum þetta hrátt og fyrirvaralítið eða fyrirvaralaust eins og ég kem til með að fara yfir í næstu ræðum mínum þegar líður á nóttina.

Það var þetta sem kveikti í mér, að við gætum notað sögu stórskáldsins til að varast það að Ísland lendi aftur í sömu kringumstæðum.