149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:35]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Fyrst hv. þingmaður nefndi Einar Benediktsson og áform hans stenst ég ekki mátið að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi séð teikningarnar af fyrirhuguðum virkjunum Einars eða stöðvarhúsum. Þær eru mjög lýsandi fyrir þann stórhug sem þá var ríkjandi, það viðhorf sem svo tók við meðal landsmanna, til þessarar auðlindar. Þetta voru hallir. Þessar virkjanir eða stöðvarhús voru teiknaðar sem hallir yfir starfsemi sem menn voru að átta sig á, og Einar hafði áttað sig og sífellt fleiri áttu eftir að gera sér grein fyrir að væri undirstaða svo mikillar verðmætasköpunar og svo mikillar framþróunar í landinu að það þótti við hæfi að húsin sem hýstu grunninn undir allt hitt bæru þess merki og voru þess vegna hönnuð sem glæsihýsi.

Því miður risu þau ekki eins og þau voru teiknuð. Kannski má segja að síðar hafi menn orðið praktískari eða litið frekar til praktískra þátta við hönnun svona stöðvarhúsa. En hvað um það. Þessi frumhönnun bar með sér að menn gerðu sér grein fyrir að þetta væri undirstaða einhvers stórs og mikilvægs fyrir samfélagið.

En nú gleymdi ég mér aðeins því að ég ætlaði að spyrja hv. þingmann út í annað um leið. Vonandi gefst tækifæri til að spyrja nánar út í það í seinna andsvari. En kannast hv. þingmaður við eða hefur hann kynnt sér samningsbrotamál Evrópusambandsins gegn 12 ríkjum, gegn 12 löndum, fyrir að hafa ekki sett virkjunarframkvæmdir í útboð?