149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:40]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég er svo sem ekki hissa á því að hv. þingmaður hafi ekki séð þetta. Þetta eru tiltölulega nýjar fréttir. En ég hyggst reyna að bæta úr því síðar í þessari umræðu með því að gera grein fyrir því máli, sem er enn eitt dæmið um hvað við eigum í vændum að öllum líkindum, nái þessi þriðji orkupakkinn fram að ganga.

En ástæðan fyrir því að ég spurði hv. þingmann út í þetta er þessi: Ef þetta verður raunin og við hér á Íslandi getum ekki ráðist í virkjunarframkvæmdir með það að markmiði að það sé í þjóðarþágu heldur muni allir slíkir kostir þurfi að fara í útboð á Evrópska efnahagssvæðinu, hvers er þá að vænta um ávinninginn af slíkum framkvæmdum þegar stórfyrirtæki í Evrópu, ásælin í umhverfisvæna orku, geta boðið hér í vatnsaflsréttindi til þess að geta svo státað sig af því að vera að framleiða umhverfisvæna, endurnýjanlega orku á Íslandi? Og þá væntanlega með það að markmiði að selja hana á evrópskum töxtum?

Er ekki hætta á því að í fyrsta lagi muni þessi fyrirtæki hafa ákveðið fjárhagslegt forskot fram yfir þau íslensku, bæði vegna hugsanlegrar stærðar sinnar og einnig vegna þess að þessi fyrirtæki þrá að að ná í umhverfisvæna orkukosti og fá jafnvel styrki til að ná í þá? Þegar sú yrði raunin og slík erlend fyrirtæki næðu þessum virkjunarkostum, hvað yrði þá um ávinninginn ef orkan yrði seld til útlanda? Myndi þetta nýtast atvinnuuppbyggingu á Íslandi? Varla. Ég geri ekki ráð fyrir að hv. þingmaður telji svo. (Forseti hringir.) En hvaða áhrif hefði þetta á þá mynd sem hv. þingmaður dró upp áðan af metnaðinum sem var fyrir Ísland í orkumálum?