149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:45]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Sá sem hér stendur kann vel að meta það að forseti veiti okkur þingmönnum ákveðið svigrúm til að ræða það stórbrotna mál sem hér er undir. Forseti féllst á það að þessi saga sem hér var sögð, og ég sagði sem víti til varnaðar, eigi erindi inn í umræðuna.

Ég vil hins vegar minna forseta á, og það veit hann náttúrlega, að það eru a.m.k. þrjú kvæði um Dettifoss sem eru þekkt á Íslandi, eitt eftir Matthías Jochumsson þar sem hann talar um þetta sem tár á vanga drottins eða eitthvað þannig. Fjallaskáldskvæðið kannast ég mætavel við en stórskáldið Einar Benediktsson var náttúrlega pragmatískur og sá í fossinum aflið sem nýta mætti til hagnýtingar fyrir þjóðina.

Nú ætla ég að biðja hæstv. forseta að líta ekki á þessa yfirlýsingu mína áðan sem einhverja hótun um að draga umræðuna út og suður. En það getur vel verið (Forseti hringir.) að ég hafi skrudduna með mér þótt ekki verði lesið mikið úr henni.