149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:59]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Þrýstingurinn á að innleiða orkupakkann hefur ekki farið fram hjá mér. En það er áhugavert að líta til þess hvaðan sá þrýstingur kemur. Hann kemur að vísu úr nokkrum áttum. En það sem mér þykir sérstaklega áhugavert í því samhengi er að þeir sem helst hafa talað fyrir sæstreng eru m.a. forstjóri Landsvirkjunar, sem er beinlínis með þetta sem sérstakt áhugamál og forgangsatriði, að því er virðist hjá Landsvirkjun. Hann er einn af helstu talsmönnum þess að samþykkja þennan þriðja orkupakka. Ef sú kenning væri rétt að samþykkt þessa orkupakka myndi skapa einhvers konar ógnarjafnvægi sem fælist í því að það að tengja landið með sæstreng eftir að orkupakkinn væri samþykktur væri það hættulegt hagsmunum manna að það mundi skapa andspyrnu við tengingu með sæstreng, skyldi maður ætla að talsmenn slíkrar tengingar væru mótfallnir þriðja orkupakkanum. Hann væri hindrun við að ná þessari tengingu.

Hvernig getur þá staðið á því að að sæstrengssinnar séu svona áfram um þriðja orkupakkann? Getur ekki verið að þeir líti svo á að þessir svokölluðu fyrirvarar skipti engu máli og að innleiðing þriðja orkupakkans sé mikilvægur liður í því að kerfið nái að halda áfram á sömu braut og að þeir fái fulltingi Evrópusambandsins við að ryðja úr vegi hindrunum við lagningu sæstrengs?