149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:03]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir afbragðsgóða ræðu. Mig langar til að eiga orðastað við hann um innihald ræðunnar sem varðaði orkuna og hækkun raforkuverðs og í sögulegu samhengi horfandi fram í tímann. Við þekkjum það að raforkuverð hækkaði með innleiðingu einkum annars orkupakkans.

Það er tilviljun að ég fékk senda tölvupósta síðastliðna nótt frá fólki sem er mér algjörlega ótengt, sem lýsti 100% hækkun á raforkuverði og póstinum fylgdu töflureiknaskjöl sem sýndu fram á þá þróun í heimilishaldi þess fólks, sem styður algjörlega það sem hv. þingmaður hefur verið að segja hér.

En varðandi okkur Íslendinga langar mig til að spyrja hv. þingmann hvort ekki séu líkur á því að raforkuverð hækki á Íslandi á öðrum forsendum en þeim sem raforkuverð markast af innan Evrópusambandsins vegna þess að hér er raforkan stöðug, á stöðugu verði og í eign þjóðarinnar, en það eru önnur markaðslögmál sem gilda í Evrópusambandinu. Telur hv. þingmaður að sú þróun sem hér er verið að lýsa til framtíðar á raforkuverði geti ekki bara þróast af öðrum ástæðum en kostnaði við uppbyggingu á dreifikerfi raforku, heldur af markaðsöflum?