149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:13]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Frú forseti. Nú vonast ég til að ná að ljúka yfirferð minni yfir fyrirvara norska Stórþingsins við þriðja orkupakkann þrátt fyrir að forseti hafi að venju aðeins skammtað mér fimm mínútur. Ég veit að að frú forseti á ekki annarra kosta völ en þetta er ekki langur tími fyrir ræður. Þetta geta varla talist fullar ræður. Þetta eru hálfgerðir ræðlingar sem okkur eru úthlutaðir hér. En ég ætla að gera mitt besta til að klára þessa yfirferð um norsku fyrirvarana.

Ég var kominn að þeim sjöunda af átta. Þar segir:

„Statnett skal eiga og reka alla sæstrengi í framtíðinni.“

Þetta er býsna afdráttarlaust. Þetta skal vera staðfest í orkulögum. Statnett er nokkurs konar landsnet þeirra Norðmanna og er áhugavert að sjá hversu afdráttarlaust þeir vilja kveða upp úr um að þetta ríkisfyrirtæki skuli eiga alla sæstrengi í framtíðinni. Það leiðir hugann að vangaveltum, áhyggjum, sem menn hafa nefnt varðandi hugsanlega tengingu Íslands um sæstreng við raforkukerfi Evrópu. Þar hefur verið bent á þann möguleika að áhugasamir fjárfestar kynnu að vilja hafa frumkvæði að því að fjármagna slíkan sæstreng, eiga hann þá og reka og fá ávinning af því að hleypa rafmagni um hann. Þær áhyggjur eru ekki ástæðulausar. Við höfum séð að innan Evrópusambandsins er mikill áhugi á því meðal fjárfesta að standa fyrir slíkum tengingum, sérstaklega í ljósi þess að Evrópusambandið stuðlar að því, ryður úr vegi hindrunum, viðskiptalegum og stjórnmálalegum, til þess að áhugasamir fjárfestar geti fjárfest í slíkum tengingum. Þetta veldur Norðmönnum augljóslega áhyggjum.

En hvers vegna telja þeir sig þurfa að taka sérstaklega fram að ríkið skuli reka alla sæstrengi í framtíðinni? Jú, einmitt vegna þess að það er ekki bara Ísland heldur líka Noregur sem gæti átt á hættu að markmið, þessi ákvæði þriðja orkupakkans sem ég nefndi hér áðan, yrðu nýtt af fjárfestum til að knýja á um að þeir en ekki Statnett fái að tengja Noreg við sameiginlega evrópska orkukerfið.

Frú forseti. Þetta er með öðrum orðum enn ein viðvörunin frá Noregi, enn ein ábendingin, ef svo má segja, um að áhyggjur okkar Íslendinga eru raunhæfar og jafnvel að því marki að land sem þegar er tengt geti lent í því að fjárfestar geri kröfu um að fá að leggja sæstreng.

En þá að áttunda fyrirvaranum sem hljóðar nokkurn veginn svona — ég bið frú forseta afsökunar á því að þetta er lausleg þýðing enda hafa stjórnvöld ekki lagt okkur til formlega þýðingu á þessum norsku fyrirvörum eins ótrúlegt og það kann að virðast:

„Tekjur verða áfram notaðar til að lækka gjaldskrár auk þess að viðhalda og þróa norska rafmagnsnetið.“

Þetta er býsna merkilegt í ljósi umræðunnar hér á Íslandi, að Norðmenn telji rétt að taka sérstaklega fram og lögfesta sérstakan fyrirvara um að tekjurnar eigi áfram að nýtast til þess að lækka gjaldskrár — lækka gjaldskrár — sem segir okkur að þeir óttast að afskipti ACER og Evrópusambandsins í heild af norskum raforkumálum verði til þess að hækka verð eða a.m.k. að koma í veg fyrir að ávinningurinn sé nýttur til þess að lækka gjaldskrár gagnvart norskum kaupendum. Auk þess að viðhalda og þróa norska rafmagnsnetið, bæta þeir svo við. Þeir vilja með öðrum orðum taka skýrt fram að þeir telji eðlilegt að ávinningurinn sem af orkusölu hlýst megi nýtast til að viðhalda og þróa norska rafmagnsnetið. (Forseti hringir.) Þetta eru ekki ástæðulausar ástæður. Við höfum þegar séð, virðulegur forseti — ég næ ekki alveg að klára yfirferðina yfir norsku fyrirvarana, en örugglega í næstu ræðu (Forseti hringir.) og bið því forseta að skrá mig aftur á mælendaskrá.

(Forseti (BHar): Já, hv. þingmaður datt í lukkupottinn, því einn hv. þingmaður hefur óskað eftir því að veita honum andsvar, þannig að hann fær nokkrar aukamínútur í þessari umferð.)