149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:19]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu sem er í röð ræðna um hina norsku fyrirvara. Norðmenn eru ekki smáríki þegar kemur að orkumálum í þeim skilningi að þó að þjóðin telji ekki mjög marga — þeir eru 4 til 5 milljónir, ef ég man rétt, það getur verið að mér skjátlist eitthvað þar, en þeir eru alla vega ekki mjög stór þjóð á heimsvísu — eru þeir mjög ríkir af orkuauðlindum, bæði olíu og raforku. En Norðmenn virðast voga sér það sem talið er óhugsandi hér, þ.e að setja fyrirvara. Þeir virðast ekki að fullu ánægðir með þessa innleiðingu eða tilskipun sem kemur frá Evrópubandalaginu í gegnum EES-samstarfið.

Mig langar til að forvitnast um það hjá hv. þingmanni hvort hann viti til þess eða þekki til þess hvort þeir fyrirvarar sem Norðmenn eru að setja hafi verið túlkaðir sem svo að þeir setji EES-samstarfið í uppnám eða gætu jafnvel orsakað það að Norðmönnum yrði hent út úr samstarfinu um Evrópska efnahagssvæðið. Ástæða þess að ég spyr er sú að það er nokkuð sem kemur fram í áliti dr. Carls Baudenbachers. Það væri gaman að fá afstöðu hv. þingmanns til þess, eða hvort hann mundi vilja upplýsa mig um það hvort hann þekki til að því hafi verið hótað að þetta myndi hafa áhrif á veru Norðmanna í EES.