149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:23]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ástæða þess að ég ber þetta upp hér er sú að í samantekt á vef Alþingis á lögfræðilegu áliti, sem þessi mæti maður, Carl Baudenbacher, gerði fyrir og að beiðni utanríkisráðherra Íslands, kemur fram að þrátt fyrir að sá möguleiki — og þetta er í lauslegri þýðingu vegna þess að skjalið hefur ekki verið þýtt yfir á íslensku fyrir okkur þingmenn, það er á ensku á vefnum — sé fyrir hendi að hafna innleiðingu á nýju ESB-lögunum í lög EES sé þetta ekki tilefni til að taka í neyðarhemilinn, eða „emergency brake“ eins og það heitir á frummálinu, og afturköllun Íslands á þriðja orkupakkanum gæti stofnað aðild þess í EES í hættu. Þarna er gefið í skyn að Ísland gæti verið rekið úr samstarfi þjóðanna um Evrópska efnahagssvæðið. Ég get ekki skilið það öðruvísi en svo að ef Norðmenn gera átta fyrirvara við þessa innleiðingu á orkupakkanum séu þeir nú aldeilis ekki að fara að innleiða þetta eins og það kemur fyrir af kúnni, eins og maður segir. Og af hverju ætti þá slíkt hið sama ekki að eiga við um okkur? Eða hefur kannski ekkert slíkt verið gefið í skyn annars staðar, þ.e. þessi pólitíska upplausn og þessi viðurlög Evrópusambandsins við því að við stöndum í lappirnar og höldum okkur við okkar sjálfstæðu ákvarðanir? Hefur það kannski bara verið gefið í skyn á þessum eina stað í þessu eina áliti? Getur verið að það sé ekki fótur fyrir þessu nema í áliti eins manns?