149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:25]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Auðvitað er enginn fótur fyrir þessu. Auðvitað dytti engum í hug að hóta Norðmönnum því að ef þeir verðu rétt sinn í samræmi við EES-samninginn kynnu þeir að verða reknir úr EES-samstarfinu. Það er augljóst að hér er eingöngu um að ræða enn eitt dæmið um að reynt sé, eins og hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson lýsti ágætlega í ræðu fyrr í kvöld, með markvissum hætti að draga kjarkinn úr þjóðinni. Þetta snýst ekki um neitt annað. Því það kemur ekki heim og saman við nokkur rök eða nokkuð sem er að finna í EES-samningnum að hægt sé að reka þjóðir úr því samstarfi fyrir það eitt að nýta þau verkfæri sem samningurinn býður upp á.

En það er eitt til viðbótar sem er mjög áhugavert við þennan samanburð hv. þingmanns á því að einhver hafi tekið upp á því fyrir tilstilli stjórnvalda að hræða Íslendinga með þessari grýlu og svo því að Noregur myndi varla sæta því sama, en það er að miklu meiri gagnrýni er á EES-samninginn í Noregi en á Íslandi. Mönnum er fyrir vikið ljóst að ef Íslendingar yrðu beittir hörðu í þessu EES-samstarfi, eins ólíklegt og það nú er, þá yrði það vatn á myllu þess stóra hóps í Noregi sem hefur efasemdir um samninginn. Því hygg ég að menn muni ekki vilja rugga bátnum í Noregi með því að nota Ísland sem Albaníu, ef svo má segja, svo að maður noti gamla kaldastríðslíkingu, og beita Íslendinga hörðu. Þá yrði það skilið í Noregi sem svo að þar með væri gagnrýnin á samninginn þar í landi réttmæt.