149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:28]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég ætla að halda áfram þar sem frá var horfið með nálguninni: Og hvað svo? þar sem ég reyni að varpa ljósi á hver næstu skref eru hvað innleiðingarmál varðar og hvernig sviðsmyndirnar þróast eftir því sem fram vindur. Það sem mig langar að koma inn á í þessari ræðu minni er það sem bíður óumflýjanlega að innleiddum þriðja orkupakkanum, þ.e. hinn svokallaði fjórði orkupakki sem er næstur á færibandinu. Farið hefur verið yfir það í ræðum hér fyrr í kvöld að fyrir því mætti færa rök að það væri æskilegt að geyma málið fram á haustið til að sjá fyllri mynd af fjórða orkupakkanum sem ku vera í meginatriðum fullmótaður nú þegar, þó að við sem erum hér í salnum núna höfum ekki séð hann.

Ég held að ég sé ekki að leggja hv. formanni utanríkismálanefndar, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, orð í munn þegar ég segi að hún hafi sagt í viðtali, sennilega fyrir rúmri viku, að það væri nauðsynlegt að innleiða þriðja orkupakkann vegna þess að með þriðja orkupakkanum félli annar orkupakkinn úr gildi og var þannig að undirstrika að það væri svona samfella í þessu, eins og ég skildi hana, þannig að menn yrðu í lógísku samhengi að innleiða þann pakka sem á eftir kemur í samhengi við það að hafa innleitt þann sem undangenginn er.

Núna er þessi fjórði orkupakki að formast og er orðinn meira og minna fullformaður. Ég ætla að fá að nefna norska skýrslu sem hefur verið sett saman um málefni fjórða orkupakkans. Hún heitir: „EUs energiunion, strømprisene og industrien“ og er í rauninni rannsókn og úttekt á þeim gögnum sem fyrir liggja nú þegar í tengslum við fjórða orkupakkann.

Í skýrslunni segir m.a., með leyfi forseta:

„Að mótun lagaramma fyrir sameiginlegt orkunet Evrópu sé nú lokið með gerð orkupakka eitt, tvö, þrjú og fjögur. Lauk því ferli í desember 2018“ — þannig að ramminn er komin.

Fram kemur í norsku skýrslunni, með leyfi forseta:

„Mikilvægustu áhrifin af samþykkt orkupakkanna verða þau að Noregur verður að taka upp markaðsverð sem gildir á sameiginlegum orkumarkaði Evrópu. Innleiðing á orkupökkum þrjú og fjögur þýðir gríðarlegar fjárfestingar í sæstrengjum og öðrum línulögnum […] án tillits til þess hvort umframorka sé fyrir hendi í Noregi til að fæða þá strengi eða ekki. […] Orkuverð mun samkvæmt skýrslunni stórhækka í Noregi og fyrirtæki þar í landi munu missa það samkeppnisforskot sem þau hafa í dag vegna allt að þreföldunar á orkuverði.“

Ég verð að viðurkenna að þreföldun á orkuverði þykir mér heldur langt til seilst þannig að ég ætla að gefa mér að þarna sé verið að tala um sérstök jaðartilvik. En það breytir því ekki að niðurstaðan er umtalsverð hækkun orkuverðs samkvæmt skýrslunni. Síðan er haldið áfram í henni, með leyfi forseta:

„Með beintengingu við sameiginlega orkunetið og sölu á hreinni orku frá Noregi mun orkuskorti, m.a. vegna tæmingar uppistöðulóna í Noregi, verða mætt með innflutningi á orku sem framleidd er meðal annars með mengandi jarðefnaeldsneyti.“

Þetta er nú sú fagra sýn sem norska skýrslan lýsir varðandi næsta skref sem kemur í orkupakka fjögur. Í skýrslunni er lýst yfir miklum áhyggjum af starfsemi iðnfyrirtækja í Noregi sem munu verða fyrir verulegum búsifjum vegna hækkaðs orkuverðs og er talað um að mikill fjöldi starfa sé í hættu. Þetta eru sömu sjónarmið og við höfum farið yfir hér gagnvart þróuninni á Íslandsmarkaði verði raforkuverð hækkað umtalsvert. Langar mig í því samhengi að minna á það sem ég er enn þá jafn hissa á, að engin umsögn hafi borist vegna málanna frá Samáli, sem eru (Forseti hringir.) regnhlífarsamtök álframleiðenda á Íslandi, sem er væntanlega stærsti (Forseti hringir.) raforkukaupandi landsins.