149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:33]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Það var athyglisvert þegar hann kom inn á störf sem gætu verið í hættu í Noregi. Það kemur nefnilega fram í þessari skýrslu að iðnaður, eins og t.d. pappírsiðnaður og málmiðnaður, á allt undir hagstæðu orkuverði. Og nú erum við að tala um Noreg. Talað er um að mögulega leggist af allt að 12.000 störf á landsbyggðinni í Noregi og að hliðaráhrifin geti verið þau að allt að 30.000 manns til viðbótar missi vinnuna, þetta sameiginlega orkukerfi sé því í raun og veruleg ógn við atvinnulífið í Noregi.

Þá veltir maður fyrir sér, frú forseti, hvort sömu aðstæður gætu komið upp hér.

Nú væri gott að heyra frá hv. þingmanni hvernig hann sér það fyrir sér í þessum efnum. Nú sjáum við áhrifin sem orðið geta í Noregi. Við sáum það sem gerðist hér heima þegar orkupakki eitt og tvö voru innleiddir, þá voru allir sérsamningar afnumdir sem fyrirtæki höfðu, sem keyptu t.d. ódýrara rafmagn á nóttinni, eins og bakarameistarar og annað slíkt. Þeir sérsamningar voru hreinlega bannaðir. Brussel bannaði að yrðu einhverjir sérsamningar með ódýrari raforku. Þetta gleyptum við möglunarlaust og mótmæltum ekkert. Stjórnvöld höfðu ekki einu sinni hugmynd um að þetta gæti gerst. Þáverandi iðnaðarráðherra hafði ekki hugmynd um að raforkuverð gæti hækkað hér á landi við innleiðingu orkupakka eitt og tvö. Við sjáum á bréfaskriftum að ráðuneytið sem vann að undirbúningi málsins hafði enga hugmynd um það, sagði að hugsanlega gætu þessir samningar verið í hættu. Þeir höfðu ekki meiri vitneskju um það en þetta.

Þannig að nú spyr maður, hv. þingmaður: Hvernig er hægt að sjá fyrir sér að þetta verði hér á landi? (Forseti hringir.) T.d. (Forseti hringir.) fyrir álfyrirtækin? Getur þetta haft afleiðingar fyrir (Forseti hringir.) álfyrirtækið á Austfjörðum, t.d. þegar raforkusamningurinn rennur út, að það verði einfaldlega svo dýrir samningar í boði að fyrirtækið sjái sér ekki hag í því að vera hér lengur?