149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:47]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er áhugaverð kenning og stundum er það augljósa ekki alveg svo augljóst. En það er auðvitað hárrétt að þarna er heill þingflokkur sem hefur verið algjörlega á móti innleiðingu fyrsta og síðan annars orkupakkans sem er núna, allur á grænum, fylgjandi innleiðingu þriðja orkupakkans. Hvað gerist þarna í millitíðinni á sama tíma og við sjáum að samtök eins og Landvernd — og það eru auðvitað mikil og náin tengsl á milli þessara tveggja félagasamtaka — senda ekki einu sinni umsögn? Kannski er að verða einhver viðsnúningur sem maður sá ekki fyrir. Það yrði þá saga til næsta bæjar ef þingflokkur Vinstri grænna yrði allra þingflokka mest áfram um frekari raforkuframleiðslu hér á landi.