149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:49]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef hér í fyrri ræðum komið stuttlega inn á fyrirvara norska þingsins við þriðja orkupakkann. Þegar maður hlýðir á lestur hv. þingmanns eða stutt ágrip af þessari svörtu skýrslu frá Noregi, um áhrifin af þessum orkupakka, skyldi engan undra að menn telji þörf á víðtækum fyrirvörum. Lýsingin í þessari skýrslu á því sem er að óbreyttu að vænta í Noregi með innleiðingu orkupakkans snýst að miklu leyti um það sama og ég hugðist fjalla um tiltölulega ítarlega hér síðar í umræðunni varðandi Ísland. Því að þessi lýsing er afskaplega lík því sem maður óttast að verði raunin hér á landi, þ.e. að störf, þúsundir starfa, geti tapast og þá sérstaklega á landsbyggðinni.

Þó að ég ætli ekki að taka of mikið forskot á sæluna með því að hefja þá umræðu sem ég hef undirbúið um áhrif orkupakkans vil ég nota tækifærið, af því að hv. þingmaður ræddi sérstaklega um áhrif á landsbyggðina í Noregi, til að leita álits hans á því hvort ekki megi gera ráð fyrir því, ef hann er ósammála mér þá má gjarnan leiðrétta mig með þetta, að áhrifin geti orðið hlutfallslega töluvert meiri á Íslandi. Nógu slæm er lýsingin á þessari framtíðarsýn fyrir Noreg.

En í ljósi þess að landsbyggðin á Íslandi reiðir sig svo mikið í sinni atvinnuþróun á aðgang að orku á samkeppnishæfu verði er staðan þá ekki einfaldlega sú að áhrifin geta orðið hlutfallslega meiri hér en í Noregi?