149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:51]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni andsvarið. Jú, ég held að allar líkur séu til þess að áhrifin geti orðið hlutfallslega meiri á Íslandi en í Noregi og það eru nokkur atriði sem koma þar til. Fyrst vil ég nefna að það sem hefur verið kallað samkeppnisforskot, sem gefst af hagstæðu orkuverði, hefur verið meira hér á Íslandi en í Noregi. Í Noregi eru menn vanari ívið hærra orkuverði en hér, held ég að óhætt sé að segja heilt yfir, þannig að hlutfallslega verður höggið meira hvað það varðar.

Ef við horfum á atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni á Íslandi þá hverfist hún mjög víða um iðnað og þá sérstaklega á þeim svæðum þar sem stóriðnaður er en þá er orkuuppbyggingin auðvitað algjört lykilatriði. Við sjáum svæði eins og í kjördæmi hv. þingmanns, Eyjafjarðarsvæðið, Akureyri, þar sem menn hafa varla treyst sér til að taka á móti nýju fyrirtæki um langa hríð nema fyrirtækið sé í þannig starfsemi að það kalli á litla raforkuþörf.

Svo að ég komi aftur að hlutfallslegu áhrifunum þá held ég að það sé alveg ljóst að þau verða meiri hér heima, einfaldlega vegna þess að orkuverðmunurinn hefur verið þannig í sögulegu samhengi að höggið verður hlutfallslega meira hér á Íslandi en það verður í Noregi, og er því þó lýst með nógu dramatískum hætti í þessari ágætu skýrslu.