149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:53]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ýmislegt fleira mætti nefna til að undirstrika hvers konar áhættu er verið að setja af stað með þessum þriðja orkupakka fyrir landsbyggðina á Íslandi í samanburði við stöðuna í Noregi, sem er þó eins ískyggileg og hv. þingmaður lýsti. Til að mynda má nefna þá staðreynd að í Noregi er með mjög markvissum hætti reynt að stuðla að byggð í landinu öllu með skattaívilnunum, með beinum stuðningi við uppbyggingu atvinnulífs um allt land. Það hefur því miður skort verulega á slíkt á Íslandi og fyrir vikið eru byggðirnar viðkvæmari fyrir sveiflum eins og þeim sem þriðji orkupakkinn gæti leitt af sér.

En ég þakka hv. þingmanni fyrir að nefna sérstaklega Eyjafjörðinn. Ég hef miklar áhyggjur af áhrifum þessa þriðja orkupakka á Eyjafjörð, á Þingeyjarsýslurnar, á allt Austurland reyndar og á landsbyggðina alla á Íslandi.