149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:06]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég fellst á þetta svar hv. þingmanns. Það er alveg rétt hjá honum að Evrópusambandið má þó eiga það að það birtir allar upplýsingarnar. Það birtir greinarnar sem verið er að innleiða. Það birtir markmiðin sem þessum ákvæðum er ætlað að ná fram. Og að því leytinu til er framganga Evrópusambandsins í þessu máli ólík framgöngu íslenskra stjórnvalda — í stað þess að reyna að fela hvað menn ætla sér og hver markmiðin eru þá er það allt saman mjög aðgengilegt á vefsvæðum Evrópusambandsins. Við verðum að gefa Evrópusambandinu það sem því ber og það er rétt að það birtir þetta allt saman.

En einmitt þess vegna er svo mikilvægt fyrir okkur þingmenn að leita í grunnupplýsingarnar til að átta okkur á því hvað er raunverulega að gerast með þennan orkupakka. En getur þá hv. þingmaður, fyrst ég fellst á svar hans hvað þetta varðar, tekið undir (Forseti hringir.) að það sé áhyggjuefni að íslensk stjórnvöld skuli ekki leitast við að draga þetta fram heldur jafnvel fela það?