149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:25]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Frú forseti. Áður en ég byrja að tala um það sem ég ætlaði að tala um þá verð ég að minna á að eitt versta já í sögu íslensku þjóðarinnar var gefið árið 1262 og hafði skelfilegar afleiðingar um langan aldur. Ég hef verið nokkuð í því, í undanförnum ræðum mínum, að minnast á það sem fyrrum stjórnmálamenn í nokkrum flokkum hafa verið að færa fram um málið sem við er að eiga núna. Ég minntist á það sem Ögmundur Jónasson hefur sagt um þetta mál og í síðari ræðu ætla ég að fara yfir það sem Hjörleifur Guttormsson hefur nýlega látið frá sér fara; það er gott að eiga eitthvað eftir því að nóg er eftir af umræðunni.

En í þetta sinn ætlaði ég að leggja aðaláherslu á einn af bestu sonum Sjálfstæðisflokksins, Tómasi Inga Olrich, fyrrum alþingismann, ráðherra og sendiherra. Hann skrifaði grein 28. mars sl. þar sem hann fer yfir það að hann hafi reynt að vara flokkssystkin sín við því hvernig þetta mál er allt saman upp byggt. Hann segir, með leyfi forseta, í greininni:

„Ég hef talið að í orkulöggjöf ESB sé að finna ákvæði sem færi vald frá Íslandi til fjölþjóðlegrar eftirlitsstofnunar, ESA, sem yrði kostuð af okkur en myndi sækja valdheimildir sínar til Evrópuréttar.“

Þetta er í sjálfu sér það sem hefur komið fram í undanförnum ræðum frá hv. þm. Jóni Þór Þorvaldssyni.

Tómas Ingi heldur áfram, með leyfi forseta:

„Það hafa margir lagt sig fram um að sannfæra mig um að ég hafi rangt fyrir mér, þótt alla jafnan sé það ekki gert á persónulegum nótum. Sá kór er sannarlega hávær þótt ekki syngi allir sama lagið.“

Síðan talar hann um hverjir skipi þennan kór og það eru m.a. sendiherra ESB á Íslandi, utanríkisráðherra Íslands, ferðamála-, iðnaðar-, nýsköpunar- og dómsmálaráðherra, fyrrverandi ráðherra Björn Bjarnason o.fl. Og Tómas Ingi segir hér, með leyfi forseta:

„Lögfræðingapundið í kórnum er mjög þungt. Því hef ég vænst þess að fá tækifæri til að lesa — svart á hvítu — tilvitnanir í orkutilskipanir ESB sem staðfesta að ekki sé um valdframsal að ræða. Á því hefur orðið bið þar til nú.“

Hann talar líka um sameiginlega yfirlýsingu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og framkvæmdastjóra orkumála ESB um gildi þriðja orkupakkans gagnvart Íslandi. Hann vitnar í yfirlýsinguna, þar sem segir:

„Verði grunnvirki yfir landamæri sett upp í framtíðinni hefur Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) ákvörðunarvald um málefni sem ná yfir landamæri, en ekki ACER.“

Eins og fram hefur komið þá réttir ACER ESA texta upp í hendurnar sem þeir svo framfylgja.

Tómas Ingi segir að þetta staðfesti það sem hann hafi haldið fram, að ákvörðunarvald verði hýst í Eftirlitsstofnun EFTA að því er Ísland varðar. Hann vill ekki gera lítið úr þessari stofnun en bendir réttilega á að hún heyri ekki undir íslensk stjórnvöld.

Síðan segir hann, með leyfi forseta:

„Í næstu málsgrein yfirlýsingar ráðherrans og framkvæmdastjóra orkumála ESB segir á hinn bóginn: „Gildandi ákvæði þriðja orkupakka ESB hafa engin áhrif á fullveldi ríkisstjórnar Íslands yfir orkulindum Íslands og ákvörðunarvald yfir nýtingu og stjórnun þeirra. Ákvörðunarvald um raforkustrengi milli Íslands og innri raforkumarkaðar ESB liggur alfarið hjá íslenskum stjórnvöldum.““

Hann segir réttilega, þessi ágæti Sjálfstæðismaður, virti stjórnmálamaður, með leyfi forseta:

„Nú er það svo að ef þessar tvær fullyrðingar eru bornar saman, stangast þær efnislega á. Sú fyrri segir að málefni er varði sæstreng og tengingu orkumannvirkja yfir landamæri falli undir Eftirlitsstofnun EFTA (ESA). Sú stofnun er óháð ráðherravaldi á Íslandi.

Seinni fullyrðingin segir að „ákvörðunarvald um raforkustrengi milli Íslands og innri raforkumarkaðar ESB liggi alfarið hjá íslenskum stjórnvöldum.““

Ergo: Þessi yfirlýsing stangast á við sjálfa sig. Hún hefur ekkert gildi en samt er hún ein af svokölluðum fyrirvörum um innleiðingu þessa pakka. Það er sífellt að koma betur í ljós og það eru sífellt fleiri að benda á hve þetta mál er illa búið, hve flausturslega það er unnið og hve vont og hættulegt það er í eðli sínu.