149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:30]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Halló Akureyri! Í ljósi þess að hv. þingmaður nefndi árið 1262 þykir mér við hæfi, án þess að það sé nú meginefni spurningar minnar eða andsvars, að minna á orðalagið sem notað er í greinargerð Carls Baudenbachers um mikilvægi þess að Íslendingar sýni Norðmönnum hollustu. Ég hefði talið, frú forseti, að þeir tímar, þegar Íslendingum var gert að sverja Noregi hollustu,væru liðnir og allmörg hundruð ár síðan, en þetta minnir okkur kannski á að sjálfstæðið kemur ekki af sjálfu sér og það þarf að verja það.

En af því að hv. þingmaður vísar í Tómas Inga Olrich og prýðisgóða grein hans vil ég vitna hér í mjög gott viðtal við flokksbróður hans, Bjarna Benediktsson, hæstv. fjármálaráðherra, og endursögn Viðskiptablaðsins af því viðtali. Þar segir, með leyfi forseta:

„Síðan er nefnt hve þriðji orkumálapakkinn svokallaði hafi verið umdeildur hér á landi og deildar meiningar um áhrif hans eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um og sjá má neðst í fréttinni. Segir í greininni að íslensk stjórnvöld hafi áhyggjur af því að með tilkomu orkumálastofnunarinnar, ACER, verði stjórn Íslendinga sjálfra yfir eigin orkuauðlindum gerð veikari og reglugerðaryfirvöldum í ESB færð aukin völd.

„Þátttaka okkar í innri markaðnum er byggð á tveggja stoða kerfi,“ segir Bjarni og vísar þá í að samið er um lagaumgjörðina á grundvelli EFTA í stað þess að samþykkja beina stjórn frá ESB.“

Hér lýsir formaður Sjálfstæðisflokksins miklum áhyggjum af ásælni Evrópusambandsins í völd í gegnum ACER. (Forseti hringir.) Væri ekki betra að hann fengi áminningu frá fyrrnefndum Tómasi Inga Olrich um eigin skoðanir (Forseti hringir.) eins og þær birtast í þessu viðtali?