149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:33]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Forseti. Fyrst um tengslin milli ársins 1262 og Carls Baudenbachers — það minnir mig á svar í bíómynd nokkurri þar sem maður verður fyrir áreiti og hann segir við þann sem áreitir hann: „Rangur maður. Röng fjandans öld.“ Við getum í sjálfu sér tekið undir það. En það er hárrétt, sem hv. þingmaður segir, að það er mjög merkilegt að menn eins og Tómas Ingi Olrich og Ögmundur Jónasson hafi ekki hlustunarskilyrði hjá þeim sem ráða flokkum þeirra nú um stundir. Menn með alla þessa reynslu, menn með alla þessa þekkingu, menn sem benda á með góðlegum hætti hvað betur mætti fara eru hunsaðir.

Það kann ekki góðri lukku að stýra, frú forseti, að hunsa sína bestu menn vegna þess að nóg er af hinu, eins og sagt er: „Því verr gagnast heimskra manna ráð sem fleiri koma saman.“ En það er ekki í þessu tilfelli nema það að ríkisstjórnin virðist vera að nota heimskra manna ráð en hlustar ekki á bestu menn sína eins og Tómas Inga Olrich og Ögmund Jónasson o.fl.

Þetta er dapurlegt, frú forseti. En það er ekki bara dapurlegt. Það er líka verulega slæmt og hættulegt vegna þess að í staðinn fyrir að hafa mál sem er vel upp byggt og stenst erum við með mál sem er flausturslega unnið og getur orðið okkur til stórkostlegs skaða. Ég á eftir, vonandi seinna í dag en hugsanlega á morgun, að ræða um hættuna á því að við munum þurfa að borga skaðabætur út af því hvernig gengið er frá þessu máli og hvernig á að keyra það í gegn vanreifað.