149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:35]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Það er sérstaklega undarlegt að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands skuli ekki fylgja leiðsögn eða ekki einu sinni taka mið af leiðsögn reyndra manna úr eigin flokkum þegar hún er svona vel fram sett og vel rökstudd. Þeim mun undarlegra er það í ljósi þess að sumir hæstv. ráðherra hafa jafnvel sjálfir áður lýst sömu skoðun, sama mati, sömu áhyggjum. Hvað gerðist í millitíðinni? Hvernig getur hv. þingmaður útskýrt það að til að mynda hæstv. fjármálaráðherra, sem fór í þetta fína viðtal — eitt af hans bestu viðtölum að mínu mati — og útlistaði afstöðu ríkisstjórnarinnar, væntanlega, og afstöðu Íslendinga, mikils meiri hluta svo sannarlega, skuli nú helst ekki vilja ræða þetta orkupakkamál og afgreiða það sem hraðast og láta aðra um að fjalla um það á næturfundum?