149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:36]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Það er einmitt þannig, hv. þingmaður, að ég á mjög erfitt með að útskýra þennan viðsnúning, ekki bara hjá hæstv. fjármálaráðherra heldur líka hjá fleirum. Ég hefði t.d. afar gaman af því að fá forsætisráðherra hér til leiks og biðja hana um að útskýra fyrir okkur og þjóðinni hvað valdi því að Vinstri grænir séu nú helstu talsmenn frjáls orkubúskapar á Íslandi og að markaðsvæða auðlindir Íslands. Það gæti orðið mjög fróðlegt samtal og ég vona að við fáum að hlýða á það. Það væri kannski einnar messu virði með hæstv. fjármálaráðherra, sem er ekki bara fjármálaráðherra heldur líka formaður stærsta stjórnmálaflokks á Íslandi, Sjálfstæðisflokksins, að biðja hæstv. forseta að fá hann hingað til að hann geti sjálfur sagt okkur hvað veldur umskiptunum.

Ég á mjög erfitt með, hv. þingmaður, að gera mér í hugarlund hver hvatinn að þessum umskiptum er. En ég held að það væri bæði fróðlegt (Forseti hringir.) og uppvekjandi, fyrir okkur sem hér erum í þessari umræðu og þjóðina alla, að fá að heyra hvað olli þessu.