149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:40]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Blekkingar eru náttúrlega stórt orð. Það sem ég á erfiðast með að skilja, og líka í ljósi þessa góða viðtals sem hefur verið dregið fram, eru þessi sinnaskipti, sérstaklega í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Eins og fram hefur komið í umræðum hjá okkur sem höfum verið að ræða þetta mál er Sjálfstæðisflokkurinn gamalgróinn flokkur, á 90 ára afmæli um helgina, og hefur verið í forystu fyrir íslenskum stjórnmálum afar lengi og í forystu fyrir ríkisstjórnum áratugum saman.

Ég held að kannski sé kominn tími til að auglýsa eftir Sjálfstæðisflokknum vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn sem við horfum upp á hér og nú, alla vega þingflokkinn, er ekki sá Sjálfstæðisflokkur sem við þekktum. Hann er ekki flokkurinn sem stóð stétt með stétt, hann er ekki flokkurinn sem stóð fyrir sjálfstæði þjóðarinnar. Hann er ekki flokkurinn sem sagði: Gjör rétt, þol ei órétt. Þetta er einhver nýr flokkur sem maður kannast ekki við, nær Samfylkingunni, þó að hann sé ekki Evrópusinnaður. Þessi sjálfstæði stolti flokkur virðist vera að breytast í einhvern krataflokk. Kannski er það skýringin á umskiptunum, að menn séu orðnir svo krataseraðir og þess vegna séu þessi umskipti eins og þau eru.

En víst er að forysta flokksins og þingflokkurinn er varaður við, fær góð ráð frá mönnum eins og Tómasi Inga Olrich en hunsar þau gjörsamlega. Og hann er ekki sá eini. Góðir menn sem fram hafa gengið fyrir skjöldu, eins og ég segi, og hafa leiðbeint, þeir hafa ekki verið með neinar hótanir eða neinn dólg. Þeir hafa bara leiðbeint og bent á, gefið góð ráð. Þeir eru ekki virtir viðlits. Þetta er ekki Sjálfstæðisflokkurinn sem ég þekkti þegar ég var ungur.