149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:53]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Herra forseti. Nú gefst mér loksins tækifæri til að fjalla aðeins um Kýpur og áform um að tengja Kýpur við Grikkland í gegnum Krít og Ísrael með sæstreng, rafstreng. Kýpur er eyja og Evrópusambandið gerir sér grein fyrir því, rétt eins og Evrópusambandið hefur viðurkennt að Ísland sé eyja. Þess vegna er áhugavert að bera raunverulegt dæmi um sæstrengsáform, tengingu þessarar eyju við sameiginlegt orkunet Evrópusambandsins, við umræðu og vangaveltur um stöðu Íslands og hvaða áhrif þriðji orkupakkinn og ACER gætu haft á stöðu þess og hugsanlega tengingu með sæstreng. Nú er eflaust önnur staða uppi á Kýpur hvað varðar viðhorf almennings til slíkrar tengingar enda býr Kýpur ekki yfir þeim náttúrulegu orkukostum sem við hér á Íslandi njótum og eflaust munu menn fagna því að eyjan verði tengd öðrum löndum með rafstreng. En það sem er áhugavert við dæmið um Kýpur er að það sýnir okkur hvernig ferlið gengur fyrir sig.

Það vildi nefnilega svo til, herra forseti, að áhugasamir fjárfestar lýstu því yfir að þeir gætu hugsað sér að fjárfesta í þessum sæstreng. Þá tók ferlið við, ferlið sem þriðji orkupakkinn lýsir og gerir ráð fyrir. ACER, þessi sameiginlega orkustofnun Evrópusambandsins, hafði samband við orkustofnanir þeirra landa sem í hlut áttu til að tilkynna um þennan áhuga fjárfestanna og upplýsa um það eða kannski minna á að orkustofnanir landanna og stjórnvöld í hvoru landi um sig, Grikklandi og Kýpur, ættu að halda ACER upplýstri um gang mála, svoleiðis að ACER gæti fylgst með því að málið fengi eðlilegan framgang, ekki yrðu settar neinar hindranir í veg heldur yrði þvert á móti reynt að liðka fyrir því að af þessari framkvæmd gæti orðið.

Það er nefnilega sérstaklega nefnt, og er sérstaklega tekið fram í reglunum sem gilda um ACER, sem við munum innleiða hér ef stjórnvöld fá vilja sínum framgengt, að þegar stjórnvöld í þeim löndum sem menn hugsa sér að tengja með nýjum raforkutengingum verða þess áskynja að til staðar séu fjárfestar með fjárhagslega burði og getu til að ráðast í slíkar tengingar, skuli tafarlaust, eins og það er orðað, tilkynna ACER um þá um þann áhuga svoleiðis að stofnunin geti sinnt því hlutverki sínu að fylgjast með því að verkefnið fái framgang eða mæti ekki einhverjum hindrunum. Sú varð raunin hvað varðar þessa tengingu Kýpur og Grikklands.

En svo hafa þau tíðindi orðið nú að það kom babb í bátinn, vegna þess að fjárfestar sem gefið höfðu fyrirheit um þessa tengingu, lögðu að mati framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og ACER of mikla áherslu á að fjárfesta fyrst í innviðum í kringum Aþenu en vanræktu þetta tengihlutverk.

Ég sé hversu lítið ég á eftir af ræðutíma mínum þannig að ég þarf að klára þessa sögu í framhaldsræðu. Ég bið því virðulegan forseta að setja mig aftur á mælendaskrá, því að það er mjög mikilvægt að nýta þetta raundæmi til þess að við Íslendingar getum áttað okkur á því hvað kunni að vera í vændum varðandi hugsanlega sæstrengstengingu.