149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:01]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er bara eitt til ráða, að nýta þau úrræði sem EES-samningurinn veitir okkur til að tryggja eigin hagsmuni þegar við teljum að þeim kunni að vera stefnt í hættu. Ef við gerum það ekki festumst við í netinu eða köngulóarvefnum, eins og hv. þingmaður nefndi fyrr í kvöld. Ef við nýtum ekki þau úrræði sem raunverulega eru fyrir hendi til að fá alvöruundanþágur festumst við í vefnum. Nú hefur verið að skýrast smátt og smátt í þessari umræðu hvað felst í svokölluðum fjórða orkupakka. Hann er að öllu leyti til þess fallinn að festa okkur enn frekar í þessum vef. Það mætti kannski halda því fram að þriðji orkupakkinn væri beitan og fjórði orkupakkinn hinn eiginlegi vefur. Það er ekki nógu góð samlíking vegna þess að við verðum föst þá þegar ef stjórnvöld fallast á þriðja orkupakkann án þess að fá lögformlegar undantekningar frá honum.

Það leiðir aftur hugann að þeirri spurningu sem við höfum reynt að spyrja í kvöld án þess að fá nokkur svör frá stjórnarliðum. Hvers vegna? Hvers vegna er þessi ríkisstjórn, hverrar ráðherrar hafa jafnvel sjálfir lýst verulegum áhyggjum af því í hvað stefni með þessum orkupakka, ekki tilbúin til þess að láta á það reyna eftir lögformlegum leiðum hvort við getum ekki fengið raunverulegar undanþágur? En við eigum auðvitað erfitt með að fá svar við því þegar stjórnarliðar leggja ekki í að koma hingað og svara, ekki einu sinni að koma og velta vöngum eða bjóða upp á hugsanlegar skýringar, (Forseti hringir.) en halda sig einfaldlega til hlés.