149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:03]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni og þakka honum fyrir svarið. Ég tek undir með honum að auðvitað saknar maður þess að stjórnarliðar skuli ekki vera hér og taka þátt í umræðunni. Ég veit að hv. þm. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, sem er formaður hv. utanríkismálanefndar, hefur náttúrlega enga skyldu til að sitja hér undir því sem við erum að tala og færa fram þó að hún gæti örugglega grætt á því, eða það er mín skoðun, og gæti lært eitthvað á því og gæti hugsanlega miðlað einhverju þannig að hægt væri að bæta málið.

En mig langar samt til að spyrja hv. þingmann einnar spurningar í viðbót vegna þess að lögformlegi hlutinn til að laga þetta mál liggur fyrir. Það er lögfræðilega rétt að hafna þessum orkupakka. Það hafa allnokkrir (Forseti hringir.) lögspekingar fært fram. Og nú spyr ég hv. þingmann: Hvers vegna hafnar ekki ríkisstjórnin (Forseti hringir.) orkupakkanum og sendir hann í lögbundið sáttaferli?