149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:06]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir ágæta ræðu. Hann lýsti ágætlega þeirri stöðu sem ACER er ætlað að hafa og hefur gagnvart þeim þjóðum sem falla undir eftirlitsheimildir stofnunarinnar. Hv. þingmaður lýsti þeim áhrifum sem koma fram og hvernig ACER framkvæmir í rauninni eftirlitshlutverk sitt. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi skoðað sérstaklega, t.d. á heimasíðu ACER, hvert hið eiginlega hlutverk sé, því að stofnanir Evrópusambandsins mega þó eiga það að þær fara ekkert í kringum það hvert hlutverk þeirra er. Það er yfirleitt hægt að nálgast kjarna þess tiltölulega auðveldlega. Hvaða hvaða línur eru lagðar hvað ACER varðar og það yfirþjóðlega vald sem þeirri stofnun er fengið undir regluverki orkupakkanna og hvernig yrði það hlutverk að líkindum helst rækt gagnvart skyldum ACER hér á Íslandi að pakkanum innleiddum?