149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:08]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er mjög skýrt. Þeir mega eiga það hjá ACER og Evrópusambandinu að þeir eru ekki feimnir við að upplýsa um hver markmiðin séu. Þeir telja þau göfug. Þau ganga auðvitað að mestu leyti út á að þjappa saman valdi, auka miðstýringu Evrópusambandsins, sem Evrópusambandið eða þeir sem ráða för virðast telja göfugt markmið.

En hvað varðar sérstaklega hlutverk þeirrar stofnunar þá snýr það að því að tengja saman raforkumarkaði, raforkukerfi Evrópu og afla aukinnar umhverfisvænnar endurnýjanlegrar orku. Fyrir vikið gerir þetta hvort tveggja Ísland og tengingu við Ísland að kjörverkefni fyrir stofnunina. Því er líka lýst hvernig stofnunin beri sig að við að ná þeim markmiðum sínum. Það er með samræmingu, eða þannig orða þeir það, á starfi orkustofnana Evrópuríkjanna. En þegar maður skoðar betur textann um hvernig sú samræming á sér stað sér maður að þar er átt við eftirlit, yfirsýn og það að gæta þess að þessar orkustofnanir fylgi leiðsögn ACER. Þegar menn koma auga á vænlegt tengiverkefni, finna aðila sem eru tilbúnir til að standa að slíku leitast ACER við að ryðja úr vegi öllum hindrunum fyrir því að verkefni geti orðið að veruleika, hvort sem hindranirnar eru lagalegs eðlis, pólitísks eða efnahagslegs.