149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:13]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og ég vil halda aðeins áfram þar sem frá var horfið varðandi höfnun á þessum orkupakka og að málið fari þá fyrir sameiginlegu EES-nefndina. Í því sambandi er mjög fróðlegt að skoða umsögn fyrrverandi utanríkisráðherra og eins helsta sérfræðings okkar þegar kemur að EES-samningnum, Jóns Baldvins Hannibalssonar. Hann segir hér og er þá að tala um réttinn til að hafna innleiðingunni og fara hina lögformlegu leið, með leyfi forseta:

„Þessi ótvíræði réttur aðildarríkja EES-samningsins til þess að hafna innleiðingu löggjafar út frá eigin þjóðarhagsmunum, án viðurlaga, var frá upphafi ein meginröksemdin fyrir því, að framsal valds skv. samningnum væri innan marka þess sem samrýmdist óbreyttri stjórnarskrá.“

Þarna er sem sagt hafður þessi varnagli sem er talinn vera það mikilvægur að hann er hluti af því að samningurinn samræmist stjórnarskránni óbreyttri. Það sýnir að þarna er mjög mikilvægur réttur sem hægt er að nýta. Við fáum síðan aðra álitsgerð frá sérfræðingi sem utanríkisráðuneytið kallaði til, Baudenbacher, sem er á öndverðum meiði og kallar þetta neyðarúrræði o.s.frv. Ég vil fá hugleiðingar hv. þingmanns á misræminu (Forseti hringir.) á milli þessara tveggja aðila. Það hlýtur að vera að (Forseti hringir.) í álitsgerð Baudenbachers hafi verið lagðar ákveðnar línur fyrir fram af stjórnvöldum. Annað held ég að maður sjái ekki út úr þessu.