149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:16]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Í þessu tilviki keyptu stjórnvöld ákveðna þjónustu og seljanda þeirrar þjónustu mátti örugglega vera ljóst til hvers væri ætlast. Með því er ég ekki að halda fram að hann hafi lýst einhverju yfir sem hann taldi ekki satt eða var ekki lýsandi fyrir hans skoðun. Þvert á móti. Eins og ég hef bent á áður tel ég að þessi fræðimaður og fyrrverandi dómari, Baudenbacher, sé mjög Evrópusinnaður. Ég hefði skilið ef ráðherra úr Viðreisn eða Samfylkingu hefði leitað álits hans á svona pólitískum spurningum. En í ljósi þess að öllum mátti vera ljóst hver afstaða hans væri er það afskaplega sérkennilegt að ráðherra úr Sjálfstæðisflokknum skyldi leita eftir áliti þessa manns nema vegna þess að ráðherrann vildi fá þessa afstöðu fram.

Enn og aftur erum við þá að ræða dæmi þess að ráðherra úr Sjálfstæðisflokki, í þessu tilviki, það sama á við um ráðherra úr Framsóknarflokki og Vinstrihreyfingunni – grænu framboði eftir því sem virðist, sé að leita eftir stuðningi frá fólki sem hefur allt önnur sjónarmið, allt önnur viðhorf, ekki hvað síst til Evrópumála en stuðningsmenn, bakland, hans flokks. Það er sem sagt ekki litið til stefnu flokkanna. Það er ekki litið til afstöðu baklandsins heldur leitað á önnur mið eftir stuðningi við það sem ríkisstjórnin er að gera.