149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:26]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Mig langar í þessari ræðu minni að gera að umtalsefni þá áherslu sem stuðningsmenn innleiðingar þriðja orkupakkans hafa lagt á efasemdir okkar um innleiðingu orkupakkans, að í þeim felist andstaða okkar við EES-samninginn. Þessi tónn hefur verið sleginn æðioft hjá stuðningsmönnum innleiðingarinnar og að ósekju, leyfi ég mér að segja. Það hefur, held ég, ekkert komi fram í málflutningi okkar í Miðflokknum hvað málið varðar sem ýtir undir að það sé eitthvað rétt í þeirri söguskoðun sem haldið er fram hér, að við viljum stilla málum þannig upp að það snúist um að við setjum EES-samninginn undir í þessu máli. Það er einmitt akkúrat öfugt sem við erum að nálgast málið. Við viljum meina að verði innleiðingin gerð með þeim hætti sem nú stefnir í muni það einmitt setja þrýsting á EES-samstarfið. Raungerist áhyggjur okkar þá finnum við okkur sem þjóð í þeirri stöðu að eina leiðin til að komast út úr þeirri stöðu sem við verðum þá lent í undir eftirlitsvaldið, m.a. ACER, að eina leiðin út úr þeirri stöðu verði þá að segja upp EES-samningnum. Það er ekki tillaga okkar í Miðflokknum, heldur er tillaga okkar sú að málinu verði vísað til sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem fyrirvararnir verði teknir inn með hefðbundnum hætti. Það er einmitt leiðin sem fjölmargir fræðimenn hafa ráðlagt okkur að fara.

Ég verð að segja eins og er að mér þykir beinlínis ómerkilegt í málflutningi stuðningsmanna innleiðingar þriðja orkupakkans að stilla málum upp með þessum hætti, því að þeir vita auðvitað að þetta er ekki raunveruleikinn. Þetta er smjörklípa frá þessum ágætu stjórnmálamönnum. Þetta er væntanlega hugsað til að setja okkur í einhvers lags vörn, sem er engin ástæða til að vera í, enda teljum við raunveruleikann vera akkúrat „omvent“ við það sem stuðningsmenn innleiðingarinnar tala fyrir í þessum efnum.

Ég tók með mér í pontu grein sem hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir skrifaði í Kjarnann ekki fyrir löngu, 17. apríl sl., undir yfirskriftinni: EES, orka og alls konar. Þar er farið yfir sögu EES-samningsins og hagsæld á Íslandi og leiddar að því líkur að hagsæld síðustu 25 ára sé fyrst og fremst því að þakka að við stundum frjáls og óháð viðskipti við önnur lönd. Þessu er ég alveg sammála. Auðvitað er það gríðarlega mikið atriði að við stundum opin og góð viðskipti við nágrannaþjóðir okkar, og það er grundvöllur þess að vel geti tekist til.

Með leyfi forseta, segir í greininni eftir hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur:

„Hluti af fjórfrelsinu og aðgangur okkar að EES-markaðnum skapast vegna samræmdra reglna með vöru og þjónustu á markaðnum. Stundum er það þannig að reglur sem skipta miklu máli á meginlandinu hafa minna eða ekkert vægi hér. Það á við um þriðja orkupakkann.“

Þarna eru enn einu sinni komin þau skilaboð að þetta skipti bara engu máli. Það sé bara ekkert í þessu. En samt, eins og svo oft hefur verið komið inn á, stendur síðan bunan upp úr þessum sömu stuðningsmönnum innleiðingar þriðja orkupakkans, að hér verði grundvallarbreyting í neytendamálum, gegnsæi muni stóraukast og það sé óforsvaranlegt annað en að innleiða þetta gríðarlega mikilvæga mál, annars verði viðskipti við vinaþjóðir okkar í uppnámi og þar fram eftir götunum. En svo segja menn í hina röndina að það sé ekkert í þessu, (Forseti hringir.) hafi minna eða ekkert vægi (Forseti hringir.) hér, það á við um þriðja orkupakkann. Það er auðvitað ekki bæði sleppt og haldið í þessum efnum.