149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:35]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það sem fram kemur í 15. lið skýrslu herra dr. Baudenbachers er mjög athyglisvert svo að ekki sé meira sagt. Í útdrætti úr skýrslunni — þetta er í löngu skýrslunni, skildi ég það ekki rétt hjá hv. þingmanni? — er dregin upp sú mynd að ráðleggingar dr. Baudenbachers séu varnaðarorð frá Atil Ö. Sumir hafa gengið svo langt að kalla þetta hræðsluáróðursplagg, skýrslu Baudenbachers, en þarna virðist þessi ágæti fræðimaður, sem er svolítið pólitískt litaður, látum það liggja á milli hluta, tala býsna skýrt um að sú leið sem við Miðflokksmenn höfum talað fyrir, þ.e. að taka málið upp við sameiginlegu EES-nefndina með það fyrir augum að reyna að ná fram hagfelldari niðurstöðu hvað málið allt varðar, sé málinu öllu og okkur og vinaþjóðum okkar að meinalausu. Þetta er auðvitað býsna merkilegt miðað við það hvernig málum hefur verið lýst hingað til.

Með leyfi forseta, svo að ég endurtaki eftir minni: That would do no harm. Það sé að meinalausu. Þarna er allt annar tónn sleginn en sá sem hefur verið trommaður upp hvað afstöðu herra Baudenbachers varðar hingað til. Þetta er það sem vill verða þegar þingflokkur eins og Miðflokkurinn er settur í þá stöðu að þurfa (Forseti hringir.) að fara í gegnum gögnin í miðri umræðu. Þetta er athyglisvert og ég vil þakka þingmanninum sérstaklega fyrir að (Forseti hringir.) vekja athygli á þessu. Þetta hafði farið fram hjá mér.