149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:45]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég held að það væri sannarlega kostur ef hægt væri að mynda þverpólitíska samstöðu um svona stórt og mikilvægt mál. En það sem ég held að væri enn mikilvægara að menn færu ekki með mál eins og þetta, þrátt fyrir að ágreiningur væri um, því að það getur verið pólitískur ágreiningur — núna horfum við fram á það að málið verði keyrt í gegn þar sem ágreiningurinn snýst um kjarnaatriði í málinu þar sem við teljum hina meintu fyrirvara ekki halda. Það er algjört lykilatriði. Og það að keyra málið í gegn með slíkt ósætti er í mínum huga miklu alvarlegra en að það sé keyrt í gegn þar sem menn væru ósammála um atriði út frá pólitík. En þetta kjarnaatriði sem fyrirvararnir eru, að ósætti sé um það hvort þeir haldi (Forseti hringir.) og að það sé ekki skoðað, ekki einu sinni á einum aukafundi með sérfræðingum sem væri auðvelt að kalla til og myndu mæta innan dagsins, þykir mér vont.