149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:55]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M):

Herra forseti. Ég hef haldið nokkrar ræður um tilskipun 72/2009 á þeim forsendum að hún sé hryggjarstykkið, eitt aðalgagnið í orkupakka þrjú, sem stendur til að innleiða. Í síðustu ræðu minni var ég byrjaður að fara yfir almenn markmið eftirlitsyfirvaldsins sem 36. gr. þess skjals fjallar um og lauk máli mínu á að lesa þau upp, með leyfi forseta:

„að afnema takmarkanir í viðskiptum með rafmagn milli aðildarríkjanna, þ.m.t. að þróa viðeigandi flutningsgetu yfir landamæri til að anna eftirspurn og auka samþættingu landsmarkaða sem getur auðveldað raforkuflæði innan Bandalagsins.“

Það er sem sagt bandalagið sem er alfa og omega í þessu, ekki Ísland eitt og sér.

Áfram les ég, með leyfi forseta:

„að stuðla að sem kostnaðarhagkvæmastri þróun öruggra, áreiðanlegra og skilvirkra kerfa sem eru án mismununar og miðast við þarfir viðskiptavina, styrkingu getu kerfisins og, í samræmi við almenn stefnumið í orkumálum, orkunýtni og samþættingu á raforkuframleiðslu lítilla framleiðenda með endurnýjanlegum orkugjöfum og dreifðri raforkuframleiðslu bæði í flutnings- og dreifikerfum.“

Hvað þýðir það að þau miðist við þarfir viðskiptavina, styrkingu getu kerfisins í samræmi við almenn stefnumið í orkumálum? Hver eru hin almennu stefnumið í orkumálum? Það eru stefnumið sambandsins. Það er ekki einkamál Íslendinga. Það eru stefnumið sambandsins. Þetta heyrir undir almenn markmið eftirlitsyfirvaldsins sem, eins og ég kom inn á áðan, er yfirvald sem hefur verið tekið undan framkvæmdarvaldinu á Íslandi og heyrir nú, ef þetta verður að veruleika, undir Evrópusambandið með milligöngu ACER.

En hverjir eru þessir litlu framleiðendur með endurnýjanlegum orkugjöfum og dreifðri raforkuframleiðslu bæði í flutnings- og dreifikerfum? Jú, það eru minni aflvirkjanir sem liggja inni um 100 leyfi fyrir núna hjá íslenskum yfirvöldum, þ.e. fyrir virkjanir sem telja 10 MW eða minna og þurfa ekki að fara í umhverfismat.

Af hverju skyldi umsóknin vera fyrir 9,9 MW? Af því að 10 MW virkjanir þurfi að fara í umhverfismat.

Ég held áfram, með leyfi forseta um hlutverkið, almenn markmið:

„að auðvelda aðgang nýrrar framleiðslugetu að netinu, einkum með því að fjarlægja hindranir sem geta komið í veg fyrir aðgang nýrra aðila að markaðinum og rafmagns frá endurnýjanlegum orkugjöfum.“

Þarna er kveðið á um að koma nýjum aðilum að, sem er kannski ekkert slæmt í sjálfu sér, nýliðun í hvaða atvinnugrein sem er getum við fagnað. En þarna er sérstaklega kveðið á um þetta. Hér er margbúið að koma fram, í hinum ýmsu ræðum, að það eru aðilar sem hafa verið að fjárfesta eða undirbúa sig til fjárfestinga í því kerfi sem við höfum byggt upp, m.a. flutningskerfi raforku sem hefur verið byggt upp á kostnað íslenskra skattborgara. Þar eiga menn að fá að stinga í samband án þess að hafa borið kostnaðinn af því, sem þjóðin hefur sannarlega gert með skattgreiðslum og ómældri vinnu og fyrirhöfn.

Ég sé að tíminn er að hlaupa frá mér enn og aftur. Þessu er hvergi nærri lokið. Ég er að reyna að dýpka aðeins skilning hv. þingheims á því hvað felst í innleiðingu á tilskipuninni. Það virðist hafa flotið fram hjá mönnum, eins og hefur komið fram í ræðum og andsvörum í nótt, hvað raunverulega felst í henni. En ég hyggst, hæstv. forseti, halda áfram með (Forseti hringir.) ræðuseríu mína eftir þessa ræðu og óska eftir að verða settur aftur á mælendaskrá.