149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:03]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni andsvarið og hlý orð í minn garð. En spurningin sem hann ber upp er um væntingar. Stutta svarið er: Jú, af hverju skyldu menn ekki hafa væntingar? Hér er búið að tromma það upp á undanförnum vikum að þessi innleiðing muni eiga sér stað. Án nokkurs vafa er það nú svo að frá því fyrir ári, þegar stjórnmálaflokkar og leiðtogar í þeim flokkum kepptust við að lýsa því yfir að þeir ætluðu að standa vörð um hagsmuni Íslands og að ekki kæmi til greina að taka þessa innleiðingu, hefur eitthvað gerst. Þrýstingurinn sem hefur verið settur á þetta mál er orðinn augljós — mér og öllum, alla vega held ég, sem hafa fylgst með þessari umræðu. Það er búið að setja þrýsting á það að þetta gangi í gegn vegna þess að hér er gróðavon.

Væntingar manna eru slíkar að þeir hafa nú þegar, án efa, sett fjármuni í að kanna virkjunarkosti og búast við því að þetta gangi í gegn enda ber ekkert á andsvörum frá stjórnarliðum sem hafa talað fyrir málinu. Það er alger skortur á þeim. Og ég held að um þetta snúist málið. Og þegar þetta verður gengið í gegn gerist annað: Væntingarnar verða lögmætar væntingar vegna þess hvernig leiðtogar hafa talað. Og ef til kemur að innleiðingin stenst svo ekki stjórnskipunarvandann (Forseti hringir.) verður komin á okkar herðar skaðabótakrafa af hálfu þeirra sem höfðu þessar lögmætu væntingar.