149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:10]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni andsvarið. Varðandi fyrirvarana þá eru þeir tvíþættir. Það eru annars vegar fyrirvararnir sem settir eru strax í upphafi. Það eru hinir stjórnskipulegu fyrirvarar sem settir eru af öllum þrem ríkjunum, Liechtenstein, Noregi og Íslandi. Liechtenstein aflétti fyrirvara sínum í maí 2018, en Noregur í apríl sama ár. Það var ein forsenda þess að innleiðing þriðja orkupakkans gengi í gegn inn í EES að öll þrjú ríkin mundu aflétta þessum fyrirvörum.

Nú hefur það ekki verið gert þar sem Ísland hefur ekki aflétt stjórnskipulega fyrirvaranum, og hefur verið rætt hér ítarlega um álit okkar bestu fræðimanna um að í því felist ákveðinn vandi að gera það svo vel sé. Þeir hafa talað um að sú leið sem valin hefur verið sé frestun á þeim vanda vegna þess að trauðla sé hægt að komast fram hjá því vandamáli. Ég fór yfir það í minni fyrri ræðu að í áliti Carls Baudenbachers er sérstaklega tekið fram á blaðsíðu 7 í 15. tölulið, þar sem hann fjallar um andstöðu Íslands á innleiðingu á reglugerð 713/2009 og orkupakka þrjú í heild sinni, að því hafi verið haldið á lofti af hálfu Íslands í sameiginlegu EES-nefndinni að Ísland myndi jafnvel vilja fara með þessa innleiðingu aftur fyrir sameiginlegu EES-nefndina (Forseti hringir.) vegna þessara fyrirvara og reyna að endursemja um aðra aðlögun eða niðurstöðu fyrir Ísland. Niðurlag greinar þessa fróma manns segir að það væri að meinalausu hægt að gera það.